2.3.2008 | 22:27
Ferðasaga
Trúboðsferð til Rúanda og Kongó í janúar 2008
myndaalbúm
Við Árni Þórðarson og ég Kolbeinn Sigurðsson héldu snemma morguns þann 12. janúar 2008 í trúboðsferð til Afríku. Þegar við komum til London, kom í ljós að miðinn hjá Árna hafði verið bakfærður og peningarnir endurgreiddir inn á kortið. Þetta hafði umboðsskrifstofan gert án þess að senda tölvupóst og láta vita af því. En eftir mikið stress og náðist að kaupa nýja miða fyrir Árna og merkilegt að fargjaldið var aðeins ódýrara en upphaflega hafði verið keypt á netinu. Þegar það var búið að redda þessu þurfti ég að hlaupa til að ná minni vél til Kenýa.
Við Árni komum til Nairobí í Kenýa með sitthvorri vélinni snemma morguns þann 13. janúar. Við náðum að breytta miðanum mínum til að við yrðum samferða til Kigali í Rúanda. Þegar við komum til Kigali var farið í gegnum venjulega vegabréfsáritun, en það kostaði okkur 60 $ hvorn. Alfons og María hjá Zion Temple tóku á móti okkur. Þau fóru með okkur á gistihús Amanda sem var ekki nógu hreint og orðið frekar lúið, en sem trúboði er maður vanur ýmsu. Það var skipt um föt og farið beint á samkomu hjá Zion Temple. Við heilsuðum upp á söfnuðinn sem telur eitthvað á milli 12 til 15 þúsund meðlimi. Postulinn Paul Gitwaza predikaði um bænina á þessari samkomu sem var mjög blessað og gott orð. Eftir að hafa fengið sér næringu eftir þessa stund, lögðum við okkur í hálftíma. Nú vorum við nokkuð þreyttir því við vorum búnir að sofa mjög lítið í tvo sólarhringa. Á seinni samkomunni á þessum sunnudegi var ég beðin að predika. Drottinn var búinn að tala við mig um orð til að gefa í Afríku. Það var orð um sáttmálsörk Guðs, nærveru Hans og dýrð Hans. Eftir predikun frelsuðust 13 manns og lækning var á eyrnarverkjum, heyrnarleysi og verkir víðsvegar hjá fólki hurfu.
Við vöknuðum kl. 5 um morgunin þann 14. janúar til þess að taka rútuna til Búkavú í Kongó. Bróðir Kahenga Silvain úr kirkjunni fór með okkur Árna til Kongó. Þessi rútuferð tekur 5 tíma og er farið í gegnum regnskógana sem eru í suður Rúanda. Á leið okkar um regnskóganna sá ég einstaka sinnum bregða fyrir öpum sem léku sér við vegkantinn. Í regnskógunum eru mikið af hermönnum sem gæta þess að veiðiþjófar og uppreisnarmenn fari ekki þar um. Þegar við komum að landamærum Kongó þurftum við að greiða 30 $ í vegabréfsáritun. Forstöðumaðurinn Baudovin Mulolo frá Zion Temple í Búkavú tók á móti okkur. Hann kom aðeins ofseint, en ástæðan var að bílinn bilaði og hann þurfti að fá annan bíl. Þetta átti eftir að vera viðloðandi við bílana sem við ferðuðumst í, þeir voru varla gangfærir. Búkavú er falleg 600.000 manna borg sem stendur í hlíðum við Kívú vatn. Við vorum settir í gistingu hjá John Peter sem er læknir og það var bara mjög góður aðbúnaður miðað við það sem ég hef kynnst á mínum Afríkuferðum. Við vorum oftast með rafmagn og rennandi vatn til að þvo sér, en það sem var best að engar moskító flugur voru í herbergjum okkar. Læknirinn notaði sprey til að steindrepa þær sem flæktust inn í húsið. Þegar ég spurði hann hvers konar læknir hann væri, þá hló hann og sagði: Ég er sá sem sker fólk og tek innan úr því ýmis konar hluti. Sem sagt skurðlæknir á stóru sjúkrahúsi í Búkavú. Þeir hafa rúm á þessu sjúkrahúsi, en það er eitthvað sem sum sjúkrahús hafa ekki á þessu svæði. En oft er skortur á lyfjum og stundum þarf að fresta aðgerðum til að bíða eftir lyfjum. John Peter er í sambandi við lækna í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu sem hjálpa honum oft með nauðsynlegan búnað og lyf til að geta framkvæmt nauðsynlegar skurðaðgerðir.
Síðdegis fórum við á samkomu hjá Zíon Temple. Söfnuðurinn var kominn í meira en helmingi stærri kirkju, en þau voru í sumarið 2005 þegar ég var þar síðast. Þau minntu mig á þau spádómsorð sem ég hafði látið falla þegar ég var hjá þeim síðast. Það var að þegar ég kæmi til þeirra næst myndu þau vera flutt í stærri kirkju. En þetta er múrsteinakirkja sem vantaði í glugga og hurðir. Hátt var til lofts, því kirkjan á að vera á tveimur hæðum sem fullbúin getur tekið hátt í 500 manns. Moldargólf var í kirkjunni og veggir inni voru ómúraðir. Til að fara inn í kirkjuna var farið niður bráðarbirgðar stiga og farið inn um inngang á neðri hæð. En aðal inngangur var ekki tilbúinn sem á að vera á efri hæð. Í rigningum kom smá úði inn á kirkjugesti sem sátu við gluggatóftirnar. En það sannaðist að Guð er ekki bundin við einhverjar fínar byggingar, heldur einlæg hjörtu sem þrá nærveru Guðs. Þarna vorum við með gott Heilags Anda mót frá þriðjudegi til sunnudags og voru 1 til 3 samkomur á dag. Ég predikaði á þessu móti um nærveru Guðs, örk Drottins, postulalega smurningu og að breyta andrúmsloftinu í borginni með hrópi til Drottins. Búkavú er fátæk borg í Kongó, en um ca. 80 % fólk í Kongó er undir fátækramörkum og á sumum svæðum eru 4 % með atvinnu. Fátækramörkin eru 1 $ á dag eða 365 $ á ári, sem gera ca. 23.000 ísl. kr. ráðstöfunartekjur á ári. Vegirnir eru mjög slæmir moldarvegir að mestu leyti og þeir vegir sem eru steyptir eru með stórhættulegar holur. Það sem bættir ekki ástandið er að það rigndi mikið, svo lækir voru eftir vegunum og oft mikil drulla og mikið pollar. Samt var fólk að reyna að selja einhverjar vörur við vegina. Það lagði einhverja ábreiðu yfir blauta moldina og raðaði þar ofan á vörum sínum til að selja. Þetta voru mest ávextir og grænmeti, en einnig eitthvað handverk og ýmis annar varningur. Þetta er með því svaklegasta sem ég hef upplifað í Afríku. Meira segja það varð coke cola laust 1 2 daga í Búkavú.
15. janúar var vaknað um kl. 7 til að biðja, hugleiða orðið og opinberanir flæddu frá hásæti Guðs. Við fórum í hádeginu til að prenta út 5 blöð fyrir Baudovin forstöðumann til að hann fengi yfirlit yfir þemað af predikunum mínum á mótinu. Hann túlkaði mig, svo þetta var til að gefa honum betri skilning á því efni sem fjallað var um. Við fórum á tvo staði til að fá útprentun, en fyrsti staðurinn gat ekki gert þetta fyrir okkur. Á seinni staðnum þurfti afgreiðslumaðurinn að fara til að ná í nokkur blöð svo hægt væri að prenta út. Eftir eitthvað basl var þetta loksins prentað út og auðvitað notuðu þeir sparnaðar útprentun sem er daufari en við eigum að venjast. Á samkomunni síðar um daginn fann ég greinilega hve þungur andi var yfir borginni og erfitt var fyrir hina lifandi söfnuði að starfa. Við þurftum að berjast í gegnum mikin múr og fólkið var mjög niðurbeygt. En dýrð sé Guði, því það kom gegnumbrot og ég sá kirkjuna rísa upp. Fólk fékk nýja von, trú þeirra óx og margir læknuðust bæði til anda, sálar og líkama. Það sem kemur gegn hinum Heilags Anda fylltu söfnuðum er galdratrú, fjandskapur frá trúrækniskirkjum og vegna fáfræði blanda sumir öllu trúarlegu saman. Bílarnir í Búkavú voru ekki merkilegir og sumir að hruni komnir. Þetta eru bílar sem færu á í brotajárn og á bílapartasölur á Íslandi. Framrúðan var illa sprungin í öllum þeim bílum sem ég fór í og þeir voru alltaf að bila. Eitt sinn þegar við vorum á leið í kirkju í okkar sparifötum, bilaði bílinn í stórum drullupolli. Bíllinn neitaði að fara í gang og við sáum ekkert framundan nema að vaða í pollum og drullu upp að kálfum. Ég kann ekkert í bifvélavirkjun, en það kom eitthvað yfir mig. Því næst lagði ég höndina á mælaborðið og sagði: Ég skipa þér að fara í gang í Jesú nafni. Bílstjórinn leit á mig stórum augum, en sneri lyklinu í startaranum og viti menn, bílinn hrökk í gang. Dýrð sé Guði, við komumst örugglega á leiðarenda.
Á morgunsamkomunni þann 16. janúar áttum við góða stund með aðallega Kristnum leiðtogum. Það var mikil spámannlegt flæði og mikil blessun leystist fram. Það var mjög nákvæmt spámannlegt orð og sýnir sem Guð gaf jafnvel okkur báðum það sama til staðfestingar. Á kvöldsamkomunni sá Árni sýn að lind væri að opnast þar sem lofgjörðarsveitin í kirkjunni var staðsett. Upp úr lindinni kom vatn og eldur frá Guði. Þegar vatn og eldur blandast, verður gufusprenging sem dreifist út um allt. Það braust út fjörug lofgjörð með dansi og tónlist. Fólk frelsaðist og læknaðist á þessari stundu.
Við sáum kirkjuna blessað á þessu móti og styrkjast dag frá degi. Forstöðumaðurinn sagði mér að við værum einu hvítu mennirnir sem hafa heimsótt kirkjuna hans og var mjög þakklátur fyrir það að við skyldum koma. Á einni samkomunni kom Árni með þekkingarorð til einnar konur um að sem barn hafði faðir hennar yfirgefið heimilið, hún hafði gefið barn frá sér og að eiginmaður hennar hafði yfirgefið hana. Þetta var þvílík lækning og blessun fyrir þessa konu sem Guð talaði til huggunarorð og mikla uppörvun. Á einni kvöldsamkomunni eftir orðið var fyrirbæn fyrir þá sem vildu eld Heilags Anda. Mikil blessun, leysing, bænarandi braust út og illir andar voru reknir út af fólki. Einn ungur maður datt í gólfið undan krafti Guðs og illur andi opinberaðist í honum. Andlitið afmyndaðist og hvít froða vall út úr honum, þegar andinn fór út af honum kom græn gufa út um munninn hjá honum. Þessi maður heitir Daniel og ég talaði við hann eftir þetta og bað fyrir honum á hverri samkomu til fullkomnar hreinsunnar af öllu illu. Hann var mjög þakklátur fyrir að Guð hafði leyst hann og gefið honum nýjan tilgang.
19. janúar var ákveðið að fara í skoðunarferð um borgina. Við fórum fyrst til að taka bensín. Þegar það var komið á bensínstöðina, var prúttað við strákana um verð. Loks var ákveðið að kaupa af einum dreng sem var með 20 l brúsa. Þar sem það átti aðeins að kaupa 5 l, setti hann slöngu frá 20 l brúsanum yfir í 5 l brúsann. Hann blés faglega í stútinn á 20 l brúsanum til að koma flæðinu á stað. Árni var að taka myndir og þá kom embættismaður frá borginni. Hann sagði að það mætti ekki taka myndir nema með leyfi. John Peter læknirinn sem við bjuggum hjá, tók hraustlega á þessu máli. Þegar embættismaðurinn hótaði að taka okkur upp á skrifstofu borgarinnar, en til að sleppa við það þurftum við að greiða honum einhverja upphæð. Þá sagði læknirinn að við myndum fara upp á skrifstofu, en þá sleppti embættismaðurinn okkur. Hann hafði ekki neitt við að styðjast til að fá þessu framfylgt. Baudovin og Sesil konan hans tóku okkur um borgina eftir þetta. Það var endað með því að fara á veitingastað við Kívú vatn sem er á stólpum yfir vatninu. Það er mjög fallegt þarna og friðsælt. En eins og sumir vita hefur verið stríð í austur Kongó um 10 ár og um 4 milljónir manna hafa fallið í þeim átökum. Þarna er friður tryggður með her umhverfis borgina.
Sunnudaginn 20. janúar voru þrjár samkomur. Á annari samkomunni vorum við með bænagöng, þar sem sex manns stóðu gegnt öðrum sex eða samtals 12 bænahermenn. Síðan komu þeir sem vildu og gengu í gegnum bænagöngin. Margir læknuðust við að fara í gegnum þessi eldgöng. Dýrð Guðs varð sjáanleg með berum augum. Loka samkoman á mótinu var líka mögnuð. Þá voru um 10 forstöðumenn frá öðrum kirkjum og Guð gaf orð til þeirra sem heild, en einnig fékk einstaka leiðtogi sérstakt spádómsorð sem hittu algjörlega í mark. Á þessu móti fékk kirkjan í Búkavú mikla uppörvun og blessun frá Guði. Við Árni vorum leystir út með gjöfum og beðnir að koma aftur sem fyrst.
Nú var farið um morguninn þann 21. janúar áleiðis til Kigali í Rúanda. En við þurftum að bíða síðan Rúanda megin við landamærinn í 3 tíma eftir rútunni. En í þessum bæ hittum við hjón sem voru Kristinn. Þau voru í neyð, fjárhagslega og eiginmaðurinn var með hjartakvilla. Það var beðið fyrir þeim og hjartaverkurinn hvarf. Einnig skírðist maðurinn í Heilögum Anda og fór að tala nýjum tungum. Árni gat blessað þau með fjárhagslegri gjöf. Síðan kom rútan, en ég lenti á einhverri versta sæti sem ég hef fengið í þessum rútuferðum til þessa. Sem trúboði Guðs tók ég þessu með jafnaðargeði og las mér til ánægju á leiðinni. En þegar við vorum um það bil hálfnaðir, fann ég fyrir sjóveiki. Vegirnir eru mjög hlykkjóttir, mishæðóttir og holóttir. En þá losnaði sæti við gluggan og ég gat setið við opin glugga. Mér leið betur, en ég sá að það var bæði fyrir aftan og framan mig einstaklingar sem voru sjóveikir. En þessi 5 6 tíma rútuferð tók enda og við komu að kvöldi til í Kigali. Mér til mikilar ánægju og undrunar vorum við settir í mjög góða gistingu. Þetta litla gistiheimili heitir Magnolía og er neðri hæð hjá Jóhanni (Belgi) og Rosine (Tútsi). Ég fékk herbergi með spegli, skápum, skrifborði, kingsize góðu rúmi, internet, rafmagn og rennandi vatn. Fallegur garður, verönd og sundlaug.
Vaknað fyrir kl. 7 þann 22. janúar og borðaður morgunmatur með Jóhanni sem vinnur við að styrkja menntakerfið í Rúanda. Síðan var beðið fyrir komandi móti sem stóð frá þriðjudegi til sunnudags í Zíon Temlpe í Kigali. Á þessu móti predikaði ég um örk Guðs sem er mynd upp á nærveru og dýrð Drottins. Það var magnað að sjá stígandann í samkomunum á þessu móti. Mikið flæði andans og opinberun í orðinu var stöðug. Á einni samkomunni voru nokkrar konur sem beðið var fyrir að þær myndu eignast börn. Það verður gaman að frétta af því þegar börnin koma, eins og gerðist í Úganda 2005 með forstöðuhjón sem voru búin að reyna í 17 ár að eignast börn. Ég spáði yfir þeim tvöföldum ávexti og innan árs voru þau búin að eignast tvíbura, strák og stelpu.
Einn dag áttum við gott spjall við Rosine Gasirabo sem er Tutsi og er eigandi gistihúsins Magnolía. Hún missti um 50 ættingja í þjóðarmorðunum 1994. Henni var komið til Evrópu á fyrstu dögum morðanna vegna þess að hún á belgískan mann. Hún missti meðal annars tvær systur, tvo bræður og börn þeirra í þessum hörmungum. Hún sagði mér að móðir hennar Francoise sem er 81 árs í dag, ætti enn þá erfitt með að vinna úr þessu áfalli. Francoise móðir hennar horfði á þegar þeir skutu tvær dætur hennar og barnabörnin. Þegar þeir ætluðu að skjóta hana, stóð byssan á sér. Hún lagði þá á flótta og komst undan. Þegar hún sneri til baka, fann hún aðra dóttur sína á lífi. Skotið hafið farið í gegnum hálsinn hennar og ekki valdið alvarlegum skaða. Það blæddi mikið, en þær notuðu salt á skotsárið til að ígerð kæmist ekki í sárið. Síðan heyrðu þær að 2ja ára dóttursonur Francoise var á lífi, en fastur á baki móður sinnar sem var látinn. Þau þrjú komust undan með því að fela sig í húsi innan um lík. Þessi saga er bara ein af mörgum sem mér hefur verið sagt frá þeim sem lifðu af þjóðarmorðin.
Þann 26. janúar fórum við að skoða aðstæður á bænafjallinu þeirra hjá Zíon Temple. Þar eru mikla hugmyndir um ráðstefnusali, bænahús, gistiheimili, verslunarmiðstöð og fleira. Þetta land er um 34,5 hk og ráðgert er að byggja um 30.000 fm. Síðan fórum við á minningarsafnið um þjóðarmorðin 1994 og það er safn sem lætur engan ósnortinn. Einnig skoðuðum við ný byggingasvæði, ný hús og hvað mikið hafði áunnist á skömmum tíma. Þegar ég kom fyrst til Rúanda, var rafmagn ca. 1 klst. á dag, ekki mikið um rennandi vatn. En núna janúar 2008 er Kigali í Rúanda með mestan hagvöxt í Afríku og er öruggusta borg Afríku. Rafmagn er tiltölulega stöðugt, götur orðnar mjög góðar og bílaflotinn orðinn mun betri. Mikið er byggt og byggingaverktaki sagði mér að það selst allt áður en hann er búinn með húsin. Fasteignaverð hefur vaxið mikið síðustu ár og því er spáð áframhaldandi næstu 10 ár. Fursti frá Dubai hefur keypt stórt land í Kigali, þar sem hann hyggst byggja lúxus hótel, 18 holu golfvöll og stóran skemmtigarð. Sumir halda jafnvel að ferðamannastraumurinn muni verða meiri til Rúanda vegna breytra aðstæðna. Það eru þjóðgarðar með fjölbreyttu dýralífi og megnið af síðustu górillunum er í Rúanda.
Morgunsamkoman var ótrúleg á sunnudeginum 27. janúar. Ég fann eins og ég hafði verið innsiglaður af Guði og það var mjög auðvelt að predika. Á seinni samkomunni þennan sunnudag höfðum við bænagöng í lokin. Tólf bænahermenn sem voru hver með fána fyrir ættkvíslir Ísraels. Sex stóðu andspænis hvor öðrum. Síðan var Árni klæddur fána Zíon Temple sem táknmynd verndarengils við hlið eldganganna. Og fulltrúi Zíon Temple var sveipaður fána Íslands og stóð sem verndarengill við hinn enda eldganganna. Lofgjörðin var öflug samhliða því að fólk gekk í gegnum göngin. Út braust mikil lofgjörð og fólk dansaði af öllum mætti frammi fyrir Drottni sínum. Við það kom dýrð Guðs niður og var sjáanleg eins og ský. Þegar myndir voru teknar sáust massar af eldkúlum, misstórar, miskýrar og alskonar litadýrð var í þeim. Sumir af hinum innfæddu orguðu þegar þeir sáu þessar eldkúlur á myndunum.
Um kvöldið fórum við í veislu með forstöðumönnunum í Zíon Temple. Við Paul Gitwaza áttum gott spjall um trúboð í Afríku og hvar þörfin er mest núna fyrir trúboð. Hann benti á að mesta þörfin væri í austur Kongó. Til að komast þangað þarf að fara í þyrlu. En það var ráðgert að biðja fyrir fjármagni til að fara í trúboð þangað í júlí 2008. Þá er ráðgert að halda þar viku mót. Áætlað er að um 30 40 þúsund manns muni safnast saman á mótsstaðnum. Það mun koma úr nærliggjandi þorpum. Sumir munu koma langt að. Þar verður predikað orð Guðs. Beðið fyrir fólki til frelsis, til lækningar og að Heilagur Andi fylli fólk. Við þyrftum að gista í tjöldum og hafa mat með okkur. En ekki að mat fyrir okkur, heldur líka fólkið sem kemur á mótið. Því þarf bæn um kraftaverk að hægt verði að fjárafla fyrir þetta þarfa verkefni.
Nú var tími til kominn að fara heim þann 28. janúar. En á leiðinni út á flugvöll fór Paul Gitwaza með mig til að sjá land sem hann vildi gefa ABC barnahjálp undir barnastarf. Það eru enn þá um 8.000 til 10.000 börn sem eru götubörn í Rúanda. Þau þurfa því heimili, mat, skóla og annað sem nauðsynlegt er fyrir barn í þessum aðstæðum.
Núna þegar ég er kominn heim vil ég þakka Guði fyrir varðveislu, framgang og alla þá blessun sem var í þessari ferð. Það reið yfir Kongó og Rúanda mikill jarðskjálfti þann 3. febrúar 2008 eða rétt eftir að ég kom heim. Þessi jarðskjálfti sem átti upptök sín rétt við borgina Búkavú í Kongó. Hann eyðilagði mörg hús og margir dóu, bæði í Kongó og Rúanda. Einnig varð vatnslaust og rafmagnslaust. Fjöldi hinna slösuðu skiptu þúsundum. Ég fékk fréttir af þeim sem við þekkjum þarna og þeim er borgið, en mjög margir á þessum slóðum misstu heimili sín. Biðjum því fyrir Rúanda og Kongó að Guð haldi vernd sinni yfir þeim og að Guðríkið eflist þar frá dýrð til dýrðar.
Kærleikskveðjur í Jesú nafni,
Kolbeinn Sigurðsson trúboði
Heimasíða: vonin.ws
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 13.3.2008 kl. 23:16 | Facebook
Um bloggið
Árni Þór Þórðarson
Færsluflokkar
Bloggvinir
- sigvardur
- zeriaph
- jonvalurjensson
- morgunstjarna
- ruth777
- rosaadalsteinsdottir
- daystar
- sirrycoach
- baldvinj
- vonin
- alit
- olijoe
- icekeiko
- medvirkill
- bryndiseva
- drengur
- aglow
- adalbjornleifsson
- hafsteinnvidar
- arabina
- gattin
- baenamaer
- coke
- doralara
- ghordur
- bassinn
- kiddikef
- krist
- huldumenn
- siggagudna
- snorribetel
- stingi
- hebron
- vert
- thormar
Myndaalbúm
.......................................................................
Spjallgluggi
Hérna getur þú spjallað við mig þegar ég er á netinu
Bækur
sem ég er að lesa
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sælir strákar mínir, Árni og Kolli. Guð er góður að varðveita ykkur á þessari ferð. Mikið var dásamlegt að heyra um allt sem Guð er að gera í Afríku. Átakanlegt að heyra um konuna sem sá þegar dætur hennar voru skotnar en svo kom sem betur fer í ljós að önnur hafði lifað af þegar var skotið á hana. Gamla konan, dóttir hennar og barnabarn þurftu að leynast innan um dáið fólk en svo gátu þau komist undir læknishendur. Vald myrkursins er mikið og ljótir atburðir að gerast út um allan heim. Djöfullinn sagði líka að hann væri kominn til að stela, slátra og eyða. Jesú kom til að frelsa okkur úr viðjum Myrkrahöfðingjans. Við erum frjáls vegna þess að við þáðum að taka við Jesú sem frelsara okkar. Var búin að lifa í voninni að sjá ferðasöguna ykkar og mér varð af ósk minni. Guð blessi ykkur. Shalom.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 3.3.2008 kl. 18:47
Sæl Rósa, Já ferðin gekk vel í alla staði og var blessuð, Guð er trúfastur að gefa allt sem maður þarf í þetta, mjög magnaðir hlutir að gerast í Afríku.
Það er eins og þú segir átakanlegt að heyra svona lífsreynslusögur, við fórum í minningarsafn vegna þjóðarmorðanna, það tók á að sjá vopnin sem voru notuð við drápin, beinin af fólkinu ásamt blóðugum og rifnum fötum sem var að fólkinu og myndir og myndbönd af atburðinum.
Margt af þessu fólki hefur snúið sér til Drottins og hefur fyrirgefið hvort öðru, í kirkjunni í Rúanda sem við fórum í er um 15.000 manns og þar eru 3.000 bænahermenn sem hafa vaktaskipti og biðja stöðugt dag og nótt alla daga vikunnar.
Fyrirhuguð er önnur ferð í sumar og þá verður farið inn í sveitir Kongó þar sem neyðin er mikil og verða haldnar útisamkomur í eina viku, safna þarf 2-3 miljónum til að gefa fólkinu að borða, reiknað er með 40-50.000 manns.
Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta lagt inn á þennan reikning:
Trúboð Vonarinnar:
banki: 0140-05-015597
kt. 200959-7799
Árni þór, 3.3.2008 kl. 21:23
Já magnað Árni hvað þú ert að bedrífa svona milli bloggfærslna, ég sé þig í öðru og skírara ljósi. Guð upphækki sig í gegnum þig í Jesú nafni
Ragnar Kristján Gestsson, 10.3.2008 kl. 21:26
Kærar þakkir kristján fyrir þitt innlegg...
Drottinn blessi þig
Árni þór, 10.3.2008 kl. 23:41
Ragnar Kristján ætlaði ég að segja
Árni þór, 10.3.2008 kl. 23:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.